Með kennslu í læknisfræði er stefnt að því að brautskrá læknakandidata með haldgóða undirbúningsmenntun fyrir hvert það framhaldsnám er þeir óska, hvort sem það er sérhæfing í sérgreinum læknisfræðinnar, vísindarannsóknir eða hvoru tveggja. Íslenskir læknar eru við framhaldsnám og störf víða um heim. Þeir hafa getið sér góðan orðstír og eiga jafnan greiðan aðgang að framhaldsnámi við virtar erlendar stofnanir. Samkeppnispróf til inngöngu í læknisfræði er haldið í júní ár hvert. Allir nemendur sem lokið hafa stúdentsprófi eiga kost á að þreyta prófið sem stendur yfir í tvo daga. Þeir 48 stúdentar sem ná bestum árangri á samkeppnisprófinu öðlast rétt til að hefja nám að hausti. Fjöldi nýnema er ákveðinn út frá áætlaðri kennslugetu sjúkrahúsa og annarra heilbrigðisstofnana sem Læknadeild er í samvinnu við. Erlendir stúdentar hafa einnig rétt á að innritast með sömu skilyrðum og þeir íslensku.
Nám í læknisfræði
Á fyrsta og öðru námsári eru kenndar undirstöðugreinar eins og efnafræði og eðlisfræði. Einnig eru kenndar greinar sem nauðsynlegar eru til þess að skilja starfsemi mannslíkamans; líffærafræði, vefjafræði, frumulíffræði, fósturfræði, lífeðlisfræði og lífefnafræði. Fjallað er um gerð líkamans, vefja hans og líffæra. Einnig er fjallað um frumur er mynda líffærin, tengsl þeirra og starfsemi. Ýmsir þættir læknisstarfsins eru kynntir, t.d. samskipti við sjúklinga og aðferðir til að viðhalda þekkingu.
Á þriðja ári læra nemendur um ýmsa þætti er truflað geta eðlilega uppbyggingu og starfsemi líkamans og valdið sjúkdómum (meinafræði ónæmisfræði, veirufræði og sýklafræði) og grunn að fyrstu meðferðarúrræðum í formi lyfjagjafa (lyfjafræði). Á fjórða ári færist námið inn á Landspítala (LSH) og er í nánum tengslum við dagleg störf þar. Nemendur læra að skrá sjúkrasögu og skoða sjúklinga, gera grein fyrir vandamálum þeirra og hvernig hægt er að bregðast við þeim með aðferðum lyflæknis- og handlæknisfræði. Einnig eru haldin námskeið um háls-, nef- og eyrnasjúkdóma, myndgreiningu og meinefnafræði.
Í lok þriðja árs er 12 vikna rannsóknatími þar sem læknanemar vinna að sjálfstæðum rannsóknum undir handleiðslu kennara. Margir nemendur kjósa að vinna verkefnin erlendis og geta m.a. farið sem skiptinemar til Norðurlandanna eða annarra landa í Evrópu á vegum Nordplus eða Erasmus. Nemendur geta einnig dvalið erlendis sem skiptinemar á öðrum tímabilum í náminu.
Á fimmta ári fer fram bóklegt og verklegt nám í taugasjúkdómum, geðsjúkdómum, barnasjúkdómum, fæðinga- og kvensjúkdómum, svo og augnsjúkdómum, húð- og kynsjúkdómum og erfðalæknisfræði. Kennsla í þessum greinum fer fram á LSH.
Á sjötta ári er m.a. kennd heimilislæknisfræði, svæfingalæknisfræði, krabbameinslæknisfræði, heilbrigðisfræði og endurhæfingarlæknisfræði. Þá er fjallað um gæðamál, stjórnun, lyfjafyrirmæli, atvikaskráningu, rafræna sjúkraskrá o.fl. Á vormisseri er skipulagt valtímabil þar sem nemendur geta valið mismunandi sjúkrahúsdeildir, heilbrigðis- og rannsóknastofnanir, eftir eigin áhugasviði og kynnt sér betur, með tilliti til framhaldsnáms.
Kennsla í læknisfræði fer fram í Læknagarði fyrstu tvö árin. Á þriðja, fjórða, fimmta og sjötta ári er að mestu kennt á Landspítala en einnig á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, á ýmsum rannsóknastofum og heilsugæslustöðvum bæði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni.
Að loknu lokaprófi (cand. med.) tekur við „kandidatsárið“ sem felst í starfsþjálfun á sjúkrahúsum og heilsugæslum og ljúka þarf til að uppfylla skilyrði til að öðlast almennt lækningaleyfi. Flestum læknum þykir nauðsynlegt að afla sér frekari framhaldsmenntunar og í flestum sérgreinum er nauðsynlegt að fara utan til fullnaðarnáms. Íslenskir unglæknar eru að meðaltali þrjú ár við störf á Íslandi að loknu kandidatsprófi. Flestir sækja framhaldsmenntun til Norðurlandanna eða Bandaríkjanna en einnig er sótt til Bretlands, Hollands, Kanada, Þýskalands og Nýja-Sjálands. Stysta framhaldsnám er þrjú ár en algeng námsdvöl erlendis er 5–7 ár.
Rannsóknartengt framhaldsnám Rúmlega 100 nemar leggja stund á rannsóknartengt meistara- og doktorsnám í líf- og læknavísindum við Læknadeild. Í boði er tveggja ára nám til meistaraprófs í líf- og læknavísindum að loknu BS prófi eða sambærilegu prófi. Doktorsnám er þriggja til fimm ára fræðilegt og verklegt nám að loknu meistaraprófi eða sambærilegu prófi. Sjá nánar: www.laeknadeild.hi.is
Félag læknanema
Félag læknanema vinnur að hagsmunamálum nemenda. Félagið gengst fyrir reglubundnum félagsfundum, annast stúdentaskipti í samvinnu við alþjóðleg samtök læknanema IFMSA, aðstoðar við ráðningar læknanema í margs konar afleysingarstörf innan heilbrigðiskerfisins og hefur staðið fyrir kynfræðslu í framhaldsskólum undir yfirskriftinni „Ástráður“. Sjá nánar: www.astradur.is og www.laeknanemar.is
(Kynningarbæklingur Læknadeildar: http://www.hi.is/sites/default/files/oldSchool/HI_l__knisfraedi_2010.pdf ) |